Fyrirætlanir hjartans eru á mannsins valdi
en svar tungunnar kemur frá Drottni.
Maðurinn telur alla vegu sína vammlausa
en Drottinn reynir ásetning hans.
Fel Drottni verk þín
og þá bera áform þín árangur.
Allt hefur Drottinn skapað í ákveðnum tilgangi,
eins hinn rangláta vegna óheilladagsins.
Sérhver hrokagikkur er Drottni andstyggð,
vissulega sleppur hann ekki við refsingu.
Misgjörðir afplána menn með tryggð og vináttu,
að óttast Drottin forðar frá illu.
Ef Drottni geðjast breytni manns
snýr hann jafnvel óvinum hans til liðs við hann.
Betra er lítið með réttu
en mikill arður með röngu.
Hjarta mannsins velur leið hans
en Drottinn stýrir skrefum hans.
Goðsvar er á vörum konungsins,
í dómi skeikar honum ekki.
Rétt vog og reisla koma frá Drottni
en lóðin á vogarskálunum eru hans verk.
Ranglætisverk eru konungum andstyggð
því að hásætið er reist á réttlæti.
Sannleiksorð eru yndi konunga,
hinn hreinskilni fellur þeim í geð.
Konungsreiði er fyrirboði dauðans
en vitur maður sefar hana.
Í brosi konungs felst líf
og hylli hans er sem regnský á vori.