Þess vegna sendi ég til yðar spámenn, spekinga og fræðimenn. Suma þeirra munuð þér lífláta og krossfesta, aðra húðstrýkja í samkundum yðar og ofsækja borg úr borg. Þannig kemur yfir yður allt saklaust blóð sem úthellt hefur verið á jörðinni, frá blóði Abels hins réttláta til blóðs Sakaría Barakíasonar sem þér drápuð milli musterisins og altarisins. Sannlega segi ég yður: Allt mun þetta lenda á þessari kynslóð.
Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi? Guð mun yfirgefa musteri yðar og það verður lagt í rúst. Ég segi yður: Héðan af munuð þér eigi sjá mig fyrr en þér segið: Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins.“