Þið harðsvíraðir og óumskornir í hjörtum og á eyrum, þið standið ávallt gegn heilögum anda eins og feður ykkar. Hver var sá spámaður sem feður ykkar ofsóttu eigi? Þeir drápu þá er boðuðu fyrir fram komu Hins réttláta og nú hafið þið svikið hann og myrt. Þið sem fenguð lögmálið um hendur engla hafið samt eigi haldið það.“
Þegar ráðsherrarnir heyrðu þetta trylltust þeir og gnístu tönnum gegn Stefáni. En hann horfði til himins, fullur af heilögum anda og leit dýrð Guðs og Jesú standa til hægri handar Guði og sagði: „Ég sé himnana opna og Mannssoninn standa til hægri handar Guði.“
Þá æptu þeir hástöfum, héldu fyrir eyrun og réðust að honum, allir sem einn maður. Þeir hröktu hann út úr borginni og tóku að grýta hann. En vottarnir lögðu yfirhafnir sínar að fótum ungum manni er Sál hét. Þannig grýttu þeir Stefán. En hann ákallaði Drottin og sagði: „Drottinn Jesús, meðtak þú anda minn.“ Síðan féll hann á kné og hrópaði hárri röddu: „Drottinn, lát þá ekki gjalda þessarar syndar.“ Þegar hann hafði þetta mælt sofnaði hann.