Hversu blakkt er gullið orðið,
umbreyttur málmurinn dýri,
helgum steinum er sóað
á öllum gatnamótum.
Dýrmætir synir Síonar
voru jafnvægir skíragulli,
nú eru þeir lagðir að jöfnu við leirker,
handaverk leirkerasmiðs.
Jafnvel sjakalarnir bjóða júgrið
og gefa hvolpum sínum að sjúga
en dóttir þjóðar minnar er orðin harðbrjósta,
eins og strútarnir í eyðimörkinni.
Tunga brjóstmylkingsins loðir
við góminn af þorsta,
börnin biðja um brauð
en enginn miðlar þeim neinu.
Þeir sem áður neyttu krása
örmagnast nú á strætunum,
þeir sem uppaldir voru í purpura
hafast nú við á sorphaugum.
Því að refsing þjóðar minnar var þyngri
en sú sem Sódóma hlaut
sem á augabragði var lögð í rúst
án þess að manna hendur kæmu þar nærri.
Höfðingjar hennar voru hreinni en mjöll,
hvítari en mjólk,
líkami þeirra rauðari en kórallar,
þeir voru ásýndum sem safír.
Nú er ásjóna þeirra svartari en sót,
þeir þekkjast ekki á strætunum.
Skinnið á þeim er skorpið að beinum,
það er þurrt eins og tré.
Þeir sem féllu fyrir sverði voru sælli
þeim sem hungrið felldi
og vesluðust upp
af því að enginn var akurgróðinn.
Hjartagóðar konur suðu eigin hendi
börnin sín,
þau urðu þeim til viðurværis
þegar þjóð minni var tortímt.
Drottinn gaf heift sinni lausan tauminn,
úthellti ákafri reiði sinni,
kveikti eld í Síon
sem brenndi hana til grunna.