Heyr, Guð, raust mína er ég kveina,
varðveit líf mitt fyrir ógnum óvinarins,
skýl mér fyrir flokki illmenna,
fyrir illvirkjamúg
er hvetur tungur sínar sem sverð,
miðar eitruðum orðum líkt og örvum
til þess að skjóta úr launsátri á hinn ráðvanda,
þeir hæfa hann óvænt, hvergi hræddir.
Þeir eggja hver annan með illyrðum,
ráðgast um að leggja snörur,
spyrja: „Hver getur séð oss?“
Þeir áforma glæpi,
leyna lævísum brögðum.
Hyldýpi er hugur manns og hjarta.
Þá skýtur Guð ör gegn þeim,
óvænt verða þeir sárir
og tunga þeirra verður þeim að falli.
Hver sem sér þá hristir höfuðið
og allir fyllast skelfingu.
Þá mun hver maður óttast,
kunngjöra dáðir Guðs
og gefa gætur að verkum hans.
Hinn réttláti gleðst yfir Drottni
og leitar hælis hjá honum
og allir hjartahreinir munu sigri hrósa.