Um mitt síðasta ár hóf Pretore prentsmiðjan í Hollandi starfsemi, en hún sérhæfir sig í stafrænni prentun á biblíupappír. En biblíupappír er mjög þunnur pappír sem er notaður við prentun á Biblíum, til að koma í veg fyrir að Biblíur verði of stórar og þungar.

Prentun á þunnan biblíupappír hefur aðeins verið möguleg með eldri hefðbundnum prentaðferðum. Í samstarfi við Canon  hefur Pretore þróað aðferðir til að prenta stafrænt á biblíupappír. Þessi nýja tækni mun í framtíðinni gera biblíufélögum mögulegt að prenta mun smærra upplag af hverri Biblíu en áður hefur tíðkast. Í stað þess að prenta 2500-5000 eintök af hverri Biblíu verður hægt að prenta 100-200 eintök.

Hið íslenska biblíufélag ákvað að ganga til samstarfs við Pretore um prentun nýju altarisbiblíunnar, sem kom út nú í haust og er hún einn af fyrstu prentgripunum sem notast við þessa nýju tækni.

Í tengslum við Heimsþing biblíufélaga í Hollandi nú í október, heimsótti Halldór Elías framkvæmdastjóri Biblíufélagsins Pretore og fundaði með Marielle Schilt frá söludeild fyrirtækisins og Hendrik Jan van der Rhee framkvæmdastjóra Pretore. Halldór skoðaði prentsmiðjuna, kynnti sér þessa nýju tækni og ræddi við starfsfólk prentsmiðjunnar um þau tækifæri sem skapast fyrir lítil málsamfélög með þessari nýju tækni. Þá var einnig rætt um hvaða takmarkanir eru enn til staðar eftir þetta fyrsta ár prentsmiðjunnar.

Með Halldóri í heimsókninni var Jaan Bärenson framkvæmdastjóri eistneska biblíufélagsins.

 

Ljósmynd: Jaan Bärenson, Marielle Schilt, Hendrik Jan van der Rhee og Halldór Elías.