Sá fagnar sem svara kann
og fagurt er orð í tíma talað.
Leið lífsins liggur upp á við fyrir hinn hyggna
til þess að hann lendi ekki niðri í helju.
Drottinn rífur niður hús hrokagikksins
en setur föst landamerki ekkjunnar.
Ill áform eru Drottni andstyggð
en hrein eru vingjarnleg orð.
Sá spillir heimilishögum sínum sem girnist rangfenginn gróða
en sá lifir lengi sem hatar mútugjafir.
Hjarta hins réttláta íhugar hverju svara skuli
en munnur ranglátra eys úr sér illsku.
Drottinn er fjarlægur ranglátum
en bæn réttlátra heyrir hann.
Vingjarnlegt augnaráð gleður hjartað,
góð frétt eykur holdi á bein.
Sá sem hlýðir á holla umvöndun
mun búa meðal hinna vitru.
Sá sem hafnar leiðsögn lítilsvirðir sjálfan sig
en sá sem hlýðir á umvöndun eykur skynsemi sína.
Að óttast Drottin er leiðsögn til visku,
hógværð er undanfari sæmdar.