„Á tíunda degi í þessum sama sjöunda mánuði er friðþægingardagurinn. Þá skuluð þið halda helga samkomu, leggja á ykkur líkamleg meinlæti og færa Drottni eldfórn. Þennan dag skuluð þið ekkert verk vinna því að þetta er friðþægingardagur. Þá skal friðþægja fyrir ykkur frammi fyrir augliti Drottins, Guðs ykkar. Hver sá sem leggur ekki á sig meinlæti þennan dag skal upprættur úr þjóð sinni. Hvern þann sem verk vinnur þennan dag mun ég uppræta úr þjóð sinni. Þið skuluð ekkert verk vinna. Það er ævarandi regla sem gildir fyrir ykkur frá kynslóð til kynslóðar hvar sem þið búið. Þetta er algjör hvíldardagur fyrir ykkur og þá eigið þið að leggja meinlæti á líkama ykkar. Þið skuluð halda algjöra hvíld frá kvöldi níunda dags mánaðarins til kvöldsins eftir.“

Drottinn talaði við Móse og sagði:
„Ávarpaðu Ísraelsmenn og segðu: Á fimmtánda degi í þessum sjöunda mánuði hefst laufskálahátíðin og stendur í sjö daga Drottni til dýrðar.
Fyrsta daginn er helg samkoma. Þá skuluð þið ekkert verk vinna. Í sjö daga skuluð þið færa Drottni eldfórn. Áttunda daginn skuluð þið halda helga samkomu og færa Drottni eldfórn. Það er hátíðisdagur og þið skuluð ekkert verk vinna.
Þetta eru hátíðir Drottins sem þið skuluð boða sem daga ætlaða helgum samkomum. Þá skal færa Drottni eldfórnir, brennifórn, kornfórn, sláturfórn og dreypifórnir, hverja fórn á sínum degi. Auk þess eru hvíldardagar Drottins og þar að auki gjafir ykkar, heitfórnir og sjálfviljafórnir sem þið færið Drottni.