En ég hef sagt við yður: Þér hafið séð mig og trúið þó ekki. Allt sem faðirinn gefur mér mun koma til mín og þann sem til mín kemur mun ég alls eigi brott reka. Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gera vilja minn heldur vilja þess er sendi mig. En sá er vilji þess sem sendi mig að ég glati engu af öllu því sem hann hefur gefið mér heldur reisi það upp á efsta degi. Því sá er vilji föður míns að hver sem sér soninn og trúir á hann hafi eilíft líf og ég mun reisa hann upp á efsta degi.“
Nú kom upp kurr meðal Gyðinga út af því að hann sagði: „Ég er brauðið sem niður steig af himni,“ og menn sögðu: „Er þetta ekki hann Jesús, sonur Jósefs? Við þekkjum bæði föður hans og móður. Hvernig getur hann sagt að hann sé stiginn niður af himni?“
Jesús svaraði þeim: „Verið ekki með kurr yðar á meðal. Enginn getur komið til mín nema faðirinn, sem sendi mig, laði hann og ég mun reisa hann upp á efsta degi.