Á lokadegi Heimsþings Sameinuðu biblíufélaganna í Hollandi var yfirlýsing þingsins samþykkt með afgerandi meirihluta þátttakenda. Tæplega 390 þátttakendur, þar af fulltrúar 147 Biblíufélaga frá öllum heimshornum tóku þátt í þinginu sem stóð í sex daga í smábænum Egmond aan Zee í Hollandi, frá 13.-17. október 2023. Meginþema heimsþingsins var „Sáttagjörð fyrir veröldina” (ens. Reconciliation for the World). Fulltrúi Íslands var Halldór Elías Guðmundsson framkvæmdastjóri Hins íslenska biblíufélags.

Yfirlýsing þingsins var byggð á samtölum og viðbrögðum biblíufélaga um allan heim á sjö forgangsverkefnum. Sú vinna átti sér bæði stað í aðdraganda þingsins og á þinginu sjálfu. Verkefnin voru 1) biblíuþýðingar, 2) dreifing prentaðra Biblía, 3) notkun Biblíunnar, 4) samfélög innflytjanda, 5) umhverfisvernd, 6) starfsseigla og 7) stafræn miðlun.

Sameinuðu biblíufélögin staðfestu eindregin vilja til að þjónusta öllum kirkjum og kirkjudeildum og sammæltust um að þýðingar, útgáfa, dreifing og notkun Biblíunnar væru grundvallandi þættir í starfi biblíufélaga.

Þá kom fram í yfirlýsingunni skýr skilningur á að biblíufélög um allan heim sjá hlutverk sitt sem viðbrögð við orðum Jesús í kristniboðsskipuninni (Matteus 28:18-20), þeim sé ætlað að skapa tækifæri fyrir allt fólk, alstaðar til að mæta Guði í gegnum texta Biblíunnar.

Biblíufélög endurnýjuðu skuldbindingu sína við markmið Sameinuðu biblíufélaganna um „Biblíu fyrir hvert og eitt“ (ens. The Bible for Everyone).

Heimsþingið 2023 var 10 Heimsþing Sameinuðu biblíufélaganna og fyrsta heimsþingið síðan 2016, sem var haldið í Fíladelfía í Bandaríkjunum fyrir sjö árum.

Elaine Duncan, formaður Sameinuðu biblíufélaganna sagðist „upplifa hvatningu til starfa þegar hún sæi samstarfsandann og eininguna sem ríkti á heimsþinginu 2023. Nú væri hins vegar verkefni hvers og eins biblíufélags að spegla yfirlýsingu þingsins í ljósi aðstæðna á hverjum stað og halda starfinu áfram í ljósi þess sem hefði verið sagt á þinginu. Að horfa til yfirlýsingarinnar og meta hvað eru forgangsverkefni á hverjum stað, í hverju landi. Fegurð Sameinuðu biblíufélaganna felst í sameiginlegri framtíðarsýn, en við höfum hvert og eitt staðbundið hlutverk í að uppfylla markmiðið um Biblíu fyrir hvert og eitt.“

Heimsþing Sameinuðu biblíufélaganna er haldið á 5-8 ára fresti og kallar saman leiðtoga biblíufélaga, fulltrúa kirkjudeilda og samstarfsaðila til að leggja línur og skapa sýn fyrir framtíð biblíudreifingar.

Um biblíudreifingu og þýðingar

Biblíufélög innan Sameinuðu biblíufélaganna annast biblíuþýðingar um allan heim. Biblían í heild var aðgengileg á 733 tungumálum sem eru töluð af 5,9 milljörðum fólks á árinu 2022. Rétt ríflega 70% af þessum þýðingum voru unnar af biblíufélögum innan Sameinuðu biblíufélaganna.

Á árinu 2022  voru 166,4 milljón rit með biblíutextum gefnar út og dreift (Biblíur, Nýja testamenti og einstakir hlutir af ritningunum), en það eru fimmfalt fleiri rit en á árinu 2021 og nálgast dreifingartölur á ársvísu fyrir COVID.

Hlutfall stafrænna Biblía í samanburði við prentaðar Biblíur heldur áfram að aukast, en 28% af Biblíum sem var dreift voru stafrænar, í samanburði við 21% árið 2021. Hér er um að ræða niðurhöl, en ekki einfaldur lestur á vefvöfrum eða Biblíur í öppum, sem ekki er hlaðið niður.

Frá síðasta Heimsþingi 2016, hafa biblíufélög dreift 1,95 milljörðum rita, þar af eru 250,2 milljónir af Biblíum í fullri lengd.

Á árinu 2022, luku biblíufélög þýðingum á 81 tungumáli sem eru notuð af 723 milljón einstaklingum.  Biblían kom út í fyrsta sinn á tungumálum sem eru töluð af 100 milljónum.

Frá síðasta heimsþingi hafa biblíufélög komið að því að klára 373 þýðingar á tungumál sem eru notuð af 3,2 milljörðum fólks. En verkinu er hvergi nærri lokið, 3,776 tungumál, meira en helmingur allra tungumála heims, hafa enga Biblíuþýðingu. En þessi 3,776 tungumál eru töluð af 201 milljón einstaklinga. Rétt um 1,5 milljarður fólks hefur ekki alla Biblíuna á sínu tungumáli.

Ljósmynd: Willem Jan de Bruin