Í vikunni var Heimsþing Sameinuðu biblíufélaganna haldið í Hollandi með þátttöku á annað hundrað biblíufélaga frá öllum heimshornum. Stríðsátök skyggðu á gleði þátttakenda. Margir framkvæmdastjórar og stjórnarfólk á fundinum starfa á landsvæðum þar sem stríð geisar. En um þessar mundir eru að minnsta kosti á þriðja tug stríðsátaka um heim allan.

Leiðtogar þriggja biblíuverkefna í Landinu helga þurftu að boða forföll á síðustu stundu vegna ástandsins í heimalöndum þeirra. Victor Kalisher leiðir Ísraelska biblíufélagið, Dina Katanacho leiðir biblíustarf fyrir Ísraela af arabískum uppruna og Nashat Filmon stýrir Biblíufélaginu í Palestínu. Þau sendu öll skilaboð til heimsþingsins í gegnum tengiliði, og deildu með þátttakendum að þau héldu áfram starfinu þrátt fyrir ömurlegar aðstæður og óskuðu eftir fyrirbæn fyrir ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs og fyrir starfinu sem þau leitast við að sinna við ómögulegar aðstæður.

Ástandið í Ísrael og á Gaza er skelfilegt. Í síðustu viku varð heimurinn vitni að skelfilegum árásum Hamas hreyfingarinnar á almenna borgara í Ísrael. En Hamas hreyfingin hefur verið við völd á Gaza síðan 2006. Ísraelsher hefur brugðist við af miklu miskunnarleysi, einangrað Gaza og varpað sprengjum á íbúa þar.

„Við erum í áfalli, bæði reið og syrgjandi“, sagði Victor frá ísraelska biblíufélaginu í samtali við fulltrúa frá Sameinuðu biblíufélögunum. „Við höfum aldrei þurft meira á fyrirbæn að halda. Starfsfólk biblíufélagsins er öruggt, en spennustigið er hátt. Margir eru í miklu áfalli.“

Dina, frá arabíska biblíufélaginu í Ísrael, sagði frá því að „starfsfólkið komi ekki til vinnu, þau séu hrædd, það séu engir bílar á götunum, skólar eru allir lokaðir. Allir halda sig heima. Okkur er ráðlagt að kaupa vikuskammt af matvælum og vatni. Það er margt annað að gerast. Það eru alvarlegir hlutir að gerast.“

Nashat í Jerúsalem, leiðir palestínska biblíufélagið og deildi með okkur að „ástandið sé mjög slæmt og það sé sorglegt að vera skyndilega í stríðsátökum. Tölur af mannfalli eru skelfilegar.“ Nashat biður um fyrirbæn fyrir öllu starfsfólki palestínska biblíufélagsins og fjölskyldum þeirra, sér í lagi þeim sem lifa og starfa á Gaza.

Victor, Dina og Nashat starfa öll fyrir biblíufélög sem þjónusta kirkjur og trúarsamfélög í Landinu helga á fjölbreyttan hátt. Mörg verkefni miða að því að finna leiðir til að draga úr ofbeldi. Sjálfboðaliðar á vegum biblíufélaganna leiða námskeið í reiðistjórnun og mikilvægi fyrirgefningar.

Hið íslenska biblíufélag kallar eftir fyrirbæn fyrir þeim verkefnum sem þau sinna á þessum erfiðu tímum. Við þurfum að biðja til Guðs um frið og réttlæti til handa öllum sem eru sköpuð í mynd Guðs, Ísraelum og Palestínubúum, til handa múslímum, gyðingum og kristnum íbúum Landsins helga, og hverjum öðrum sem þar búa.

„Við í biblíufélaginu í Ísrael köllum eftir að þið biðjið Guð að gefa okkur visku á þessum erfiðu tímum,“ segir Victor. „Visku og náð til að bera út boðskapinn um Guðsríkið, og fyrirbæn um að við látum ekki reiðina ná tökum á okkur. Biðjið um visku og náð til að elska, ekki aðeins þá sem við elskum heldur elska óvini okkar.“

Byggt á grein eftir James Howard-Smith sem birtist á heimasíðu Breska Biblíufélagsins 13. október 2023. Ljósmynd af Jerúsalem tekin af Robert Bye og dreift á Unsplash.