Maður sá var sjúkur er Lasarus hét, frá Betaníu, þorpi Maríu og Mörtu, systur hennar. En María var sú er smurði Drottin smyrslum og þerraði fætur hans með hári sínu. Bróðir hennar, Lasarus, var sjúkur. Nú gerðu systurnar Jesú orðsending: „Drottinn, sá sem þú elskar er sjúkur.“
Þegar hann heyrði það mælti hann: „Þessi sótt er ekki banvæn heldur Guði til dýrðar til þess að Guðs sonur vegsamist hennar vegna.“
Jesús elskaði þau Mörtu og systur hennar og Lasarus. Þegar hann frétti að hann væri veikur var hann samt um kyrrt á sama stað í tvo daga. Að þeim liðnum sagði hann við lærisveina sína: „Förum aftur til Júdeu.“
Lærisveinarnir sögðu við hann: „Rabbí, nýlega voru menn þar að því komnir að grýta þig og ætlar þú þangað aftur?“
Jesús svaraði: „Eru ekki stundir dagsins tólf? Sá sem gengur um að degi hrasar ekki því hann sér ljós þessa heims. En sá sem gengur um að nóttu hrasar því hann hefur ekki ljósið í sér.“
Þetta mælti hann og sagði síðan við þá: „Lasarus, vinur okkar, er sofnaður. En nú fer ég að vekja hann.“
Þá sögðu lærisveinar hans: „Drottinn, ef hann er sofnaður batnar honum.“ En Jesús talaði um dauða hans. Þeir héldu hins vegar að hann ætti við venjulegan svefn. Þá sagði Jesús þeim berum orðum: „Lasarus er dáinn og ykkar vegna fagna ég því að ég var þar ekki, til þess að þið skuluð trúa. En förum nú til hans.“
Tómas, sem nefndist tvíburi, sagði þá við hina lærisveinana: „Við skulum fara líka til að deyja með honum.“