Um þessar mundir sá ég fólk troða vínþrær á hvíldardegi í Júda. Einnig sá ég fólk hirða korn og klyfja asna. Það flutti einnig vín, vínber, fíkjur og alls kyns vörur til Jerúsalem á hvíldardegi en ég varaði það við að selja matarbirgðir sínar á þessum degi. Fólk frá Týrus, sem bjó í Jerúsalem, flutti þangað fisk og alls kyns vörur og bauð íbúum í Júda til kaups í Jerúsalem á hvíldardegi.
Þá ávítaði ég höfðingjana í Júda og sagði við þá: „Hvílíka svívirðu vinnið þið með því að vanhelga hvíldardaginn! Var það ekki þetta sem feður ykkar gerðu svo að Guð okkar sendi þessa ógæfu yfir okkur og þessa borg? Nú ætlið þið að kalla enn meiri reiði yfir Ísrael með því að vanhelga hvíldardaginn.“
Þegar skuggar borgarhliða Jerúsalem lengdust við upphaf hvíldardagsins skipaði ég að hliðunum skyldi lokað. Eins mælti ég fyrir um að þau skyldu ekki opnuð fyrr en við lok hvíldardagsins. Jafnframt setti ég nokkra af mönnum mínum á vörð við hliðin svo að enginn flutningur færi um þau á hvíldardeginum.
Þá létu kaupmennirnir og vörusalarnir fyrirberast um nótt utan við Jerúsalem í eitt eða tvö skipti. En ég ávítaði þá og sagði: „Hvers vegna látið þið fyrirberast úti fyrir múrnum að næturlagi? Ef þið gerið það aftur læt ég leggja hendur á ykkur.“ Upp frá því komu þeir ekki aftur á hvíldardegi.
Þá skipaði ég Levítunum að þeir skyldu hreinsa sig og koma til að standa vörð við hliðin svo að helgi hvíldardagsins yrði virt.