Nú hafði fyrri sáttmálinn líka fyrirskipanir um þjónustuna og jarðneskan helgidóm. Tjaldbúð var gerð og í fremri hluta hennar voru bæði ljósastikan, borðið og skoðunarbrauðin og heitir hún „hið heilaga“. En bak við annað fortjaldið var tjaldbúð sem hét „hið allra helgasta“. Þar var reykelsisaltari úr gulli og sáttmálsörkin sem öll var gulli búin. Í henni var gullkerið með manna í, stafur Arons sem laufgast hafði og sáttmálsspjöldin. En yfir henni voru kerúbar dýrðarinnar og breiddu vængina yfir náðarstólinn. En um þetta hvert og eitt ræði ég ekki nú.
Þannig er þessu fyrir komið. Prestarnir ganga stöðugt inn í fremri tjaldbúðina og annast þjónustu sína. Inn í hina innri gengur æðsti presturinn einn, einu sinni á ári, ekki án fórnarblóðs. Það ber hann fram vegna sjálfs sín og fyrir syndir sem fólkið hefur drýgt af vangá. Með því sýnir heilagur andi að vegurinn til hins heilaga er enn eigi kunnur orðinn, á meðan fremri tjaldbúðin stendur enn. Hún er ímynd þess tíma sem nú er. Hér eru fram bornar gjafir og fórnir sem megna ekki að færa þeim sem innir þjónustuna af hendi vissu um að vera fullkominn. Þetta eru aðeins ytri fyrirmæli ásamt reglum um mat og drykk og ýmiss konar þvotta sem mönnum eru á herðar lagðar allt þangað til Guð endurnýjar allt.
En Kristur er kominn sem æðsti prestur þeirra gæða sem komin eru. Hann gekk inn í gegnum hina stærri og fullkomnari tjaldbúð sem ekki er með höndum gerð, það er að segja er ekki af þessari sköpun. Ekki fór hann með blóð hafra og kálfa heldur með eigið blóð inn í hið heilaga í eitt skipti fyrir öll og aflaði eilífrar lausnar. Blóð hafra og nauta og askan af kvígu, stráð á menn, er óhreinir hafa gerst, á að helga þá svo að þeir verði hreinir hið ytra. Hve miklu fremur mun þá blóð Krists, þegar hann hefur í krafti eilífs anda borið sjálfan sig fram fyrir Guð sem lýtalausa fórn, hreinsa samvisku okkar af dauðum verkum svo að við getum þjónað lifanda Guði.