2. kafli
Þar sem nú börnin eru af holdi og blóði þá varð hann sjálfur maður, til þess að hann með dauða sínum gæti að engu gert þann sem hefur mátt dauðans, það er að segja djöfulinn, og frelsað alla þá sem lifðu allan sinn aldur undir ánauðaroki af ótta við dauðann. Því að víst er um það að ekki tekur hann að sér englana en hann tekur að sér niðja Abrahams. Því var það að hann í öllum greinum átti að verða líkur systkinum sínum svo að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur í þjónustu fyrir Guði og gæti friðþægt fyrir syndir lýðsins. Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim er verða fyrir freistingu.

3. kafli
Helguðu vinir sem hafið fengið köllun til himinsins. Horfið til Jesú, postula og æðsta prests þeirrar trúar sem við játum. Hann var trúr Guði, er hafði skipað hann, eins og var um Móse „í öllu hans húsi“. En hann er verður meiri dýrðar en Móse eins og sá er húsið gerði á meiri heiður en húsið sjálft. Sérhvert hús hefur einhver gert en Guð er sá sem allt hefur gert. Móse var að sönnu trúr í öllu hans húsi eins og þjónn. Hann átti að vitna um það sem boðað skyldi síðar en Kristur er sonur og er trúað fyrir að ráða yfir húsi hans. Og hans hús erum við ef við höldum djörfunginni og voninni sem við miklumst af.