Spottaranum hugnast ekki fortölur,
til viturra manna leitar hann ekki.
Glatt hjarta gerir andlitið hýrlegt
en sé hryggð í hjarta er hugurinn dapur.
Hjarta hins vitra leitar að þekkingu
en heimskinginn gæðir sér á fíflsku.
Fátæklingurinn lítur aldrei glaðan dag
en sá sem vel liggur á er sífellt í veislu.
Betra er að eiga lítið og óttast Drottin
en mikinn fjársjóð með áhyggjum.
Betri er einn skammtur kálmetis með kærleika
en alinaut með hatri.
Bráðlyndur maður vekur deilur
en sá sem seinn er til reiði stillir þrætur.
Vegur letingjans er eins og þyrnigerði
en gata trúmennskunnar sem rudd braut.
Vitur sonur gleður föður sinn
en heimskinginn fyrirlítur móður sína.
Heimskingjanum er fíflskan gleði
en skynsamur maður gengur beinar brautir.
Áform verða að engu þar sem engin er ráðagerðin
en ef margir leggja á ráðin rætast þau.