Þegar þið skerið upp kornið í landi ykkar skaltu hvorki hirða af ysta útjaðri akurs þíns né dreifarnar á akri þínum. Þú skalt hvorki tína allt í víngarði þínum né hirða ber sem falla í víngarði þínum. Þú skalt skilja þetta eftir handa hinum fátæka og aðkomumanninum. Ég er Drottinn, Guð ykkar.
Þið megið hvorki stela né svíkja og ekki hlekkja hver annan. Þið skuluð ekki sverja meinsæri við nafn mitt svo að þú vanhelgir ekki nafn mitt. Ég er Drottinn.
Þú skalt hvorki féfletta náunga þinn né ræna hann. Laun daglaunamanns skulu ekki vera í þinni vörslu næturlangt til næsta morguns.
Þú mátt hvorki formæla heyrnarlausum manni né setja hindrun í veg fyrir blindan. Þú skalt bera lotningu fyrir Guði þínum. Ég er Drottinn.
Þið megið ekki fremja ranglæti í réttinum. Þú mátt hvorki draga taum hins valdalausa né vera hinum valdamikla undirgefinn. Þú skalt dæma skyldmenni þín af réttlæti. Þú mátt hvorki bera róg á meðal landa þinna né krefjast blóðs náunga þíns. Ég er Drottinn.
Þú skalt ekki bera hatur í brjósti til bróður þíns heldur átelja hann einarðlega svo að þú berir ekki sekt hans vegna. Þú skalt ekki hefna þín á löndum þínum. Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ég er Drottinn.