Vínið er illkvittið, sterkur drykkur glaumsamur,
fávís verður sá sem lætur leiðast afvega.
Reiði konungs er eins og ljónsöskur,
sá sem egnir hann gegn sér hættir lífi sínu.
Það er manni sómi að forðast deilur
en afglapinn kveikir þrætur.
Letinginn plægir ekki á réttum tíma,
því leitar hann um uppskerutímann og grípur í tómt.
Ráð mannshjartans eru sem djúp vötn
og hygginn maður eys af þeim.
Margir láta vingjarnlega
en tryggan vin, hver finnur hann?
Réttlátur maður ástundar ráðvendni,
sæl verða börn hans eftir hann.
Þegar konungur situr á dómstóli
vinsar hann allt illt úr með augnaráðinu einu.
Hver getur sagt: „Ég hef haldið hjarta mínu hreinu,
ég er hreinn af synd?“
Tvenns konar vog og tvenns konar mál,
hvort tveggja er Drottni andstyggð.
Jafnvel má þekkja af verkum barnsins
hvort athafnir þess eru hreinar og einlægar.
Eyrað sem heyrir og augað sem sér,
hvort tveggja hefur Drottinn skapað.
Elskaðu ekki svefninn svo að þú verðir ekki snauður,
opnaðu augun, þá muntu mettast af brauði.
„Afleitt, afleitt,“ segir kaupandinn
en þegar hann gengur burt hælist hann um.
Gnægð er af gulli og perlum
en dýrmætastar eru þó vitrar varir.