Þú skalt ekki breiða út róg. Þú skalt ekki leggja þeim lið sem fer með rangt mál með því að bera ljúgvitni. Þú skalt ekki fylgja meirihlutanum til illra verka. Þú skalt ekki vitna gegn andstæðingi í neinni sök þannig að þú fylgir meirihlutanum og hallir réttu máli. Þú skalt ekki draga taum fátæks manns í málaferlum.
Rekist þú á villuráfandi naut eða asna óvinar þíns skaltu færa honum skepnuna aftur. Sjáir þú asna andstæðings þíns liggja uppgefinn undir byrðinni skaltu ekki láta hann afskiptalausan heldur rétta honum hjálparhönd.
Þú skalt ekki halla rétti fátæks manns sem hjá þér er þegar hann á í málaferlum.
Forðastu mál byggð á lygi og vertu ekki valdur að dauða saklauss manns og réttláts því að ég dæmi ekki sekan mann saklausan.
Þú skalt ekki þiggja mútur því að mútur blinda sjáandi menn og rugla málum þeirra sem hafa rétt fyrir sér.
Þú skalt ekki beita aðkomumann ofríki. Þið farið nærri um líðan aðkomumannsins því að þið voruð aðkomumenn í Egyptalandi.
Í sex ár skaltu sá í land þitt og hirða afrakstur þess en sjöunda árið skaltu láta það liggja ónotað og hvílast. Þá geta hinir fátæku meðal þjóðar þinnar lifað af því og það sem þeir skilja eftir geta villt dýr étið. Þú skalt fara eins með víngarð þinn og ólífutré. Í sex daga skaltu vinna verk þitt en sjöunda daginn skaltu ekkert verk vinna svo að uxi þinn og asni geti hvílt sig og sonur ambáttar þinnar og aðkomumaðurinn geti endurnærst.
Þið skuluð gæta ykkar í öllu sem ég hef lagt fyrir ykkur. Þið megið ekki nefna nöfn annarra guða, þau mega ekki heyrast af munni þínum.