Til söngstjórans. Lag: Vitnisburðarliljan. Miktam eftir Davíð, til fræðslu, þá er hann barðist við Sýrlendinga frá Mesópótamíu og Sýrlendinga frá Sóba og Jóab sneri við og vann sigur á Edómítum í Saltdalnum, tólf þúsund manns.
Guð, þú hefur útskúfað oss og tvístrað,
þú reiddist oss – reis oss við að nýju.
Þú lést jörðina skjálfa og rifna,
lagfærðu sprungurnar því að hún riðar.
Þú lést lýð þinn kenna á hörðu,
gafst oss vín að drekka svo að vér reikuðum.
Þú hefur gefið þeim gunnfána er óttast þig
svo að þeir bjargist undan örvahríð. (Sela)
Hjálpa þú með máttarhendi þinni og bænheyr oss
til þess að þeir sem þú elskar megi frelsast.
Guð hefur sagt í helgidómi sínum:
„Ég vil fagna sigri, ég vil skipta Síkem,
mæla Súkkótdalinn.
Ég á Gíleað og ég á Manasse,
Efraím er hjálmurinn á höfði mér,
Júda veldissproti minn,
Móab er handlaug mín,
ég fleygi skóm mínum á Edóm,
hrósa sigri yfir Filisteu.“
Hver leiðir mig til virkisborgarinnar,
hver fylgir mér til Edóms?
Hefur þú útskúfað oss, Guð,
og ferð eigi út með hersveitum vorum?
Veit oss lið gegn fjandmönnunum
því að hjálp manna er einskis nýt.
Með Guðs hjálp vinnum vér afrek
og hann mun troða óvini vora fótum.