Gleðjist fyrir Guði sem er styrkur vor,
fagnið fyrir Jakobs Guði.
Hefjið lofsöng og berjið bumbur,
knýið kliðmjúka lútu og hörpu.
Þeytið hafurshorn með nýju tungli,
við tunglfylling á hátíðisdegi vorum.
Því að þetta eru lög fyrir Ísrael,
fyrirmæli frá Jakobs Guði.
Hann gerði það að reglu fyrir Jósef
þegar hann hélt gegn Egyptalandi.
Ég heyri mál sem ég þekki ekki:
„Ég létti byrðinni af herðum hans
og losaði hendur hans við burðarkörfuna.
Þú kallaðir í neyðinni,
ég bjargaði þér,
ég bænheyrði þig í þrumuskýi
og reyndi þig við Meríbavötn. (Sela)
Heyr, lýður minn, að ég megi vara þig við,
Ísrael, að þú vildir hlusta.
Enginn framandi guð má vera hjá þér.
Engan útlendan guð máttu tilbiðja.
Ég er Drottinn, Guð þinn,
sem leiddi þig út af Egyptalandi.
Opna munn þinn, að ég megi seðja þig.
En lýður minn hlustaði ekki á mig
og Ísrael hlýddi mér ekki.
Þá sleppti ég þeim, forhertum í hjarta,
þeir fengu að fara að eigin geðþótta.
Ó, að lýður minn hlustaði á mig,
Ísrael gengi á vegum mínum.
Þá mundi ég skjótt lægja óvini þeirra
og snúa hendi minni gegn fjendum þeirra.
Þeir sem hata Drottin mundu hræsna fyrir honum
og svo yrði um aldur og ævi.
Þér gæfi ég kjarnbesta hveiti að eta
og seddi þig á hunangi úr klettum.“