Færslan hér á eftir er skrifuð af Stefáni Boga Sveinssyni héraðsskjalaverði á Héraðsskjalasafni Austfirðinga. Færslan birtist fyrst á vefsvæði Héraðsskjalasafnsins. Hún er endurbirt hér enda skemmtileg nálgun á mögulega áhrifasögu Biblíunnar.
Hún er mörg spekin sem fær að hljóma á öldum ljósvakans og birtist okkur á samfélagsmiðlum.
Það má skemmta sér yfir ýmsu, margt er gert að umtalsefni og oft eru það sömu hlutirnir aftur og aftur. Eitt af því sem ég hef stundum séð rætt og vísað í er textinn við lagið Draumaprinsinn, sem Ragnhildur Gísladóttir syngur með miklum ágætum.[1] Þá er það jafnan nafn hins meinta draumaprins sem rætt er um, en þannig vill til að Ragnhildur syngur ýmist að hann heiti Benóný eða Benjamín, sem hefur valdið ógurlegum heilabrotum og kátínu gegnum tíðina. Nýjasta vísun í þessar vangaveltur sem ég gat fundið var í skrifum sagnfræðingsins góðkunna Stefáns Pálssonar, í einni af greinum hans um gengi Fram-pilta í knattspyrnu nú í sumar. Þar segir Stefán:
„Í laginu Draumaprinsinum eftir Magnús Eiríksson er ýmist sungið um Benóný og Benjamín á ballinu sem leggur sterkan arm um bak sögukonunnar og þau svífa í eilífðardans. Enginn fær að vita hvort nafn draumaprinsins sé í raun Benjamín eða Benóný – og hér mun ekki vera um að ræða töfraraunsæi heldur vangá í hljóðritun.“[2]
Eins og þarna kemur fram er vinsælt að velta vöngum yfir hvort þarna sé um að ræða einhverskonar mistök, annað hvort söngkonunnar eða þeirra sem skrifað hafa upp söngtextann. Tilgangur þessa pistils er að svara þessari spurningu í eitt skipti fyrir öll og þá í leiðinni sýna fram að að Stefán Pálsson hefur þarna algjörlega rangt fyrir sér!
Eflaust munu einhverjir velta því fyrir sér hvers vegna héraðsskjalavörður austur á landi er að blanda sér í umræðu um dægurlagatexta frá níunda áratugnum, eða þá að leggja lykkju á leið sína til að leiðrétta rangfærslur í skrifum tæknisagnfræðinga um íslenska knattspyrnu. Það er eðlilegt að spurt sé, en staðreyndin er sú að þekkingarinnar sem þessi litli pistill miðlar, var sannarlega aflað í dagsins önn hér á Héraðsskjalasafni Austfirðinga, við leit að skjölum og heimildum um önnur og óskyld mál. Söfn eins og okkar geyma nefnilega víðtæka og margvíslega þekkingu og okkar hlutverk er að aðstoða við að leita hennar og miðla henni áfram.
En áður en við sviptum hulunni af því sem fannst við hin daglegu störf í safninu er rétt að takast á við spurninguna sem nefnd var hér áðan, eru þetta kannski bara mistök, söngvara eða skrifara? Því er fljótsvarað. Í stuttu viðtali í Æskunni árið 1983 er Ragnhildur spurð að þessu beint út og svarar sömuleiðis af hreinskilni.
„Nei, ekki mistök. Það átti að vera viss húmor í þessu hjá Magnúsi Eiríkssyni. Mér finnst gaman að smá sprelli sem vekur spurningar hjá fólki.“[3]
Þannig liggur ljóst fyrir, frá fyrstu hendi og skömmu eftir að lagið kom fyrst út, að um meðvitaða ákvörðun var að ræða hjá höfundi lags og texta. En var það bara „sprellið“ eitt sem réði ferðinni hjá Magnúsi? Og hvers vegna valdi hann einmitt þessi nöfn? Nú vindum við okkar kvæði í kross, höldum austur í Víkur og staðnæmumst þar á fyrri hluta 19. aldar.
Um byggðina í Víkum, milli Borgarfjarðar eystra og Loðmundarfjarðar, eru til ýmsar heimildir bæði í skjölum og rituðu máli. Í tengslum við leit að upplýsingum um þetta efni varð fyrir mér bókin Mávabrík eftir Ármann Halldórsson (sem var fyrstur til að gegna embætti héraðsskjalavarðar hér við safnið), þar sem finna má nokkra sagnaþætti um fyrri tíð. Einn þeirra nefnist „Hugvitsmaðurinn Benoní“ og fjallar um Benoní Guðlaugsson[4], merkilegan mann sem fæddur var árið 1802 og reisti sér um ævina bústaði í Hvalvík, á Glettinganesi og víðar.[5] Benoní var sonur Elínar Tómasdóttur, sem eignaðist hann í lausaleik, líkt og önnur börn sín, og var lengst af einhverskonar einsetukona í kofum hér og þar, í Hjaltastaðaþinghá um það leyti sem Benoní litli fæddist.
Nafnið sem Elín valdi þessum syni sínum var ekki algengt á þessum tíma, svo óalgengt raunar á Austurlandi að hann einn ber það (þó hann sé tilgreindur tvisvar) af öllum þeim aragrúa fólks sem nefndur er til sögu í ættfræðistórvirkinu Ættir Austfirðinga.[6] Nafnavalið verður Ármanni til umhugsunar og telur hann litlar líkur á að hún hafi haft af því neina fyrirmynd frá öðru fólki eða skírt eftir eða í höfuðið á einhverjum, „…heldur lesið biblíuna og fundið þar nafn á föðurleysingjann sinn.“[7] Nafnið er nefnilega að finna í 1. Mósebók, 35. kafla, versi 16 til 18.
„Þau héldu nú frá Betel og þegar þau nálguðust Efrata kom að því að Rakel skyldi verða léttari. Varð fæðingin mjög erfið og þegar fæðingarhríðirnar voru sem verstar sagði ljósmóðirin við hana: „Óttast þú ekki því að þú munt eignast annan son.“ Er hún var í andarslitrunum, því að fæðingin kostaði hana lífið, nefndi hún hann Benóní en faðir hans nefndi hann Benjamín.“
Þarna eru nöfnin bæði, á sama drengnum. Í skýringum við þessi nöfn í nýjustu þýðingu Biblíunnar á íslensku segir að Benóní þýði „þjáningarsonur minn“ meðan Benjamín þýði „sonur Suðurlandsins (þ.e. hamingjulandsins).“[8] Ármann notar hins vegar í sínum kafla orðin „harmkvælason“ og „hamingjuson“ sem er hljómfegurra að mínu mati.[9]
Að þessu samhengi fengnu þykir mér ljóst að það er engin tilviljun, eða bara helbert gaman, sem ræður því að draumaprinsinn í samnefndu lagi heitir ýmist Benóný eða Benjamín. Sumir myndu túlka textann sem svo að þetta séu tveir ólíkir menn og stúlkan laus í rásinni, flakki á milli draumaprinsa. En með Biblíuvísunina í huga breytist merkingin. Draumaprinsinn er einn, en hvort hann mun verða stúlkunni til hamingju eða harmkvæla, um það er ekki hægt að segja.
Textinn er ekki langur, tvö erindi og viðlag þar sem breytt er um þetta eina nafn. Í skrifuðum texta er því hvort nafn nefnt einu sinni. Þegar lagið er sungið eru hins vegar fyrra erindið og fyrri útgáfa viðlagsins endurtekin í lokin. Harmkvælasonurinn er því nefndur tvisvar og laginu lýkur á honum. Hvort í því felst afstaða höfundar um það hvort niðurstaðan er líklegri skal ekki fullyrt hér.
[1] Textann má m.a. finna hér: https://glatkistan.com/2017/02/28/draumaprinsinn/.
[2] Stefán Pálsson, „Draumaprinsinn,“ Knattspyrnufélagið FRAM (vefur), 23. apríl 2023, https://fram.is/is/2023/04/23/draumaprinsinn/.
[3] „„Draumaprinsinn eftirminnilegur“ segir Ragnhildur Gísladóttir,“ Æskan 84, 2. tbl. (1983): 36.
[4] Eins og fram kemur í þættinum skrifaði hann nafn sitt sjálfur svo, en á Íslendingabók er það skrifað Benóní.
[5] Ármann Halldórsson, „Hugvitsmaðurinn Benoní,“ Mávabrík (Egilsstaðir: Snotra, 1992), 52-107.
[6] Jakob Einarsson, Nafnaskrá, Einar Bjarnason og Benedikt Gíslason sáu um útgáfuna, 9. bindi, Ættir Austfirðinga, (Reykjavík: Austfirðingafélagið í Reykjavík, 1968)
[7] Ármann Halldórsson, „Hugvitsmaðurinn Benoní,“ 56.
[8] Biblían. Fyrsta Mósebók 35:18 (11. íslenska útgáfa).
[9] Ármann Halldórsson, „Hugvitsmaðurinn Benoní,“ 56.