Hvað merkir nú þetta? Eigum við að vera áfram í syndinni til þess að náðin verði því meiri? Fjarri fer því! Við sem dóum syndinni, hvernig ættum við að lifa áfram í henni? Eða vitið þið ekki að við öll, sem skírð erum til Krists Jesú, erum skírð til dauða hans? Við erum því dáin og greftruð með honum í skírninni. Og eins og faðirinn vakti Krist frá dauðum með dýrðarmætti sínum, eins eigum við að lifa nýju lífi.
Fyrst við erum samgróin honum með því að deyja líkt og hann eigum við einnig að vera samgróin honum með því að rísa upp líkt og hann. Við vitum að okkar gamli maður dó með honum á krossi til þess að líkami syndarinnar yrði að engu og við værum aldrei framar þrælar syndarinnar. Dauður maður er leystur frá syndinni.
Ef við erum dáin með Kristi trúum við því að við munum og með honum lifa. Við vitum að Kristur, upp vakinn frá dauðum, deyr ekki framar. Dauðinn drottnar ekki lengur yfir honum. Með dauða sínum dó hann frá syndinni í eitt skipti fyrir öll en lífi sínu lifir hann Guði. Þannig skuluð og þið álíta sjálf ykkur vera dáin frá syndinni en lifandi Guði í Kristi Jesú.