Drottinn skýrði mér frá því svo að ég vissi það. Þú gerðir mér ljóst hvað þeir höfðu fyrir stafni. Sjálfur var ég eins og grunlaust lamb sem er leitt til slátrunar. Ég skildi ekki að þeir brugguðu ráð gegn mér: „Vér skulum eyða trénu í blóma þess. Vér skulum eyða honum úr landi lifenda svo að nafns hans verði ekki minnst framar.“
Drottinn hersveitanna, réttláti dómari,
þú sem rannsakar hjarta og nýru,
sýndu mér hefnd þína á þeim.
Ég fel þér málefni mitt.

Því boðar Drottinn þetta gegn Anatótbúum sem sækjast eftir lífi mínu og segja: „Þú mátt ekki starfa sem spámaður í nafni Drottins, þá muntu deyja fyrir hendi vorri.“ Þess vegna segir Drottinn hersveitanna: Nú dreg ég yður til ábyrgðar. Ungir menn munu falla fyrir sverði, synir þeirra og dætur munu deyja úr hungri. Enginn þeirra verður eftir því að ég sendi ógæfu yfir Anatótbúa árið sem þeir verða dregnir til ábyrgðar.