Dag nokkurn var Jesús að kenna. Þar sátu farísear og lögmálskennendur, komnir úr hverju þorpi í Galíleu og Júdeu og frá Jerúsalem, og kraftur Drottins var með honum til að lækna. Komu þá menn með lama mann í rekkju og reyndu að bera hann inn og leggja hann fyrir framan Jesú. En vegna mannfjöldans sáu þeir engin ráð til að komast inn með hann og fóru því upp á þak og létu hann síga í rekkjunni niður um helluþekjuna beint fram fyrir Jesú. Og er Jesús sá trú þeirra sagði hann: „Maður, syndir þínar eru þér fyrirgefnar.“
Þá tóku fræðimennirnir og farísearnir að hugsa með sér: „Hver er sá er fer með slíka guðlöstun? Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?“
En Jesús skynjaði gjörla hugsanir þeirra og sagði við þá: „Hvað hugsið þið í hjörtum ykkar? Hvort er auðveldara að segja: Syndir þínar eru þér fyrirgefnar, eða segja: Statt upp og gakk? En til þess að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald á jörðu til að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér,“ – og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín.“
Jafnskjótt stóð maðurinn upp frammi fyrir þeim, tók það sem hann hafði legið á, fór heim til sín og lofaði Guð. En allir voru furðu lostnir og lofuðu Guð. Og þeir urðu óttaslegnir og sögðu: „Óskiljanlegt er það sem við höfum séð í dag.“