Vei yður, blindir leiðtogar! Þér segið: Ef einhver sver við musterið þá er það ógilt en sverji menn við gullið í musterinu þá er það gildur eiður. Blindu heimskingjar, hvort er meira gullið eða musterið sem helgar gullið? Þér segið: Ef einhver sver við altarið þá er það ógilt en sverji menn við fórnina, sem á því er, þá er það gildur eiður. Blindu menn, hvort er meira fórnin eða altarið sem helgar fórnina? Sá sem sver við altarið sver við það og allt sem á því er. Sá sem sver við musterið sver við það og við þann sem í því býr. Og sá sem sver við himininn sver við hásæti Guðs og við þann sem í því situr.
Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni en hirðið ekki um það sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti. Þetta ber að gera og hitt eigi ógert að láta. Blindu leiðtogar, þér síið mýfluguna en svelgið úlfaldann!
Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér hreinsið bikarinn og diskinn utan en innan eru þeir fullir yfirgangs og óhófs. Blindi farísei, hreinsaðu fyrst bikarinn innan svo að hann verði líka hreinn að utan.
Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum sem sýnast fagrar utan en innan eru þær fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra. Þannig eruð þér. Þér sýnist góðir fyrir sjónum manna en eruð að innan fullir hræsni og ranglætis.
Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér hlaðið upp grafir spámannanna og skreytið leiði réttlátra og segið: Ef vér hefðum lifað á dögum feðra vorra hefðum vér ekki átt hlut með þeim í lífláti spámannanna. Þannig vitnið þér það sjálfir að þér eruð afkomendur þeirra sem myrtu spámennina. Nú skuluð þér fylla mæli feðra yðar. Höggormar og nöðrukyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm?