Eftir jarðskjálftann kom eldur. En Drottinn var ekki í eldinum. Eftir eldinn kom þytur af þýðum blæ. Þegar Elía heyrði hann huldi hann andlit sitt með skikkju sinni, gekk út og tók sér stöðu við hellismunnann. Þá barst honum rödd sem spurði: „Hvað ert þú að gera hér, Elía?“ Hann svaraði: „Af brennandi ákafa hef ég lagt mig fram vegna Drottins, Guðs hersveitanna, því að Ísraelsmenn hafa snúið frá sáttmálanum við þig. Þeir hafa rifið niður ölturu þín og drepið spámenn þína með sverði. Ég er einn eftir og nú sitja þeir um líf mitt.“ Drottinn svaraði honum: „Snúðu aftur til Damaskus, farðu sömu leið og þú komst um eyðimörkina. Er þangað kemur skaltu smyrja Hasael til konungs yfir Aram. Þú skalt einnig smyrja Jehú Nimsíson til konungs yfir Ísrael og Elísa Safatsson frá Abel-Mehóla skaltu smyrja til spámanns í þinn stað. Hvern þann sem kemst undan sverði Hasaels skal Jehú drepa og þann sem kemst undan sverði Jehú skal Elísa drepa. En ég mun skilja sjö þúsund eftir í Ísrael, hvert kné sem ekki hefur beygt sig fyrir Baal og hvern munn sem ekki hefur kysst hann.“
Þegar Elía fór þaðan hitti hann Elísa Safatsson sem var að plægja. Tólf sameyki fóru á undan honum en sjálfur plægði hann með því tólfta. Um leið og Elía gekk fram hjá kastaði hann skikkju sinni yfir hann. Elísa yfirgaf nautin þegar í stað, hljóp á eftir Elía og sagði: „Leyfðu mér fyrst að minnast við föður minn og móður. Síðan kem ég og fylgi þér.“ Elía svaraði: „Farðu heim en mundu hvað ég hef gert þér.“ Elísa sneri við, tók nautin í sameykinu, slátraði þeim og sauð kjötið við eld og hafði aktygi nautanna að eldsneyti. Hann gaf fólkinu kjötið og það neytti þess. Síðan bjó hann sig til ferðar, hélt á eftir Elía og gerðist þjónn hans.