Þess vegna segir Drottinn Guð:
Sjá, ég legg undirstöðustein á Síon,
traustan stein, valinn hornstein.
Sá sem trúir flýr ekki.
Ég geri réttinn að mælivað
og réttlætið að mælilóði.
Þá mun hagl sópa burt hæli lyginnar
og vatnsflóð skola burt skjólinu.
Sáttmáli yðar við dauðann verður rofinn
og samningur yðar við helju fær ekki staðist.
Þegar flóðbylgjan dynur yfir eins og svipa
molar hún yður sundur.
Í hvert sinn sem hún hvolfist yfir
þrífur hún yður með sér,
hvern morgun ríður hún yfir, nótt sem dag
og skelfilegt verður að skýra boðskapinn.
Rúmið er of stutt til að rétta megi úr sér,
ábreiðan of mjó til að vefja henni um sig.
Því að Drottinn mun rísa upp eins og á Perasímfjalli,
hann mun fyllast heift eins og í dalnum við Gíbeon.
Hann mun vinna verk sitt, hið undarlega verk sitt,
og inna af hendi starf sitt, hið annarlega starf sitt.
Látið nú af skruminu svo að fjötrar yðar herðist ekki
því að ég hef heyrt um eyðinguna
sem Drottinn, Guð allsherjar, hefur ákveðið um allt landið.

Hlustið og hlýðið á mál mitt,
takið eftir og heyrið ræðu mína.