Hlustið á, þið auðmenn, grátið og kveinið yfir þeim bágindum sem yfir ykkur munu koma. Auður ykkar er orðinn fúinn og klæði ykkar eru orðin mölétin, gull ykkar og silfur er orðið ryðbrunnið og ryðið á því mun verða ykkur til vitnis og éta hold ykkar eins og eldur. Þið hafið safnað fjársjóðum á síðustu dögum. Launin, sem þið hafið haft af verkamönnunum sem slógu lönd ykkar, hrópa og köll kornskurðarmannanna eru komin til eyrna Drottins hersveitanna. Þið hafið lifað í sællífi á jörðinni og í óhófi. Þið hafið alið hjörtu ykkar á slátrunardegi. Þið hafið sakfellt og drepið hinn réttláta. Hann veitir ykkur ekki viðnám.
Þreyið því, systkin, þangað til Drottinn kemur. Sjáið akuryrkjumanninn! Hann bíður eftir hinum dýrmæta ávexti jarðarinnar og þreyir eftir honum þangað til hann hefur fengið haustregn og vorregn. Verið þið einnig þolinmóð, styrkið hjörtu ykkar því að Drottinn er í nánd.
Kvartið ekki hvert yfir öðru, systkin, svo að þið verðið ekki dæmd. Dómarinn stendur fyrir dyrum. Bræður og systur, takið spámennina til fyrirmyndar sem talað hafa í nafni Drottins og liðið illt með þolinmæði. Því við teljum þá sæla sem þolgóðir hafa verið. Þið hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið hvaða lyktir Drottinn gerði á högum hans. Drottinn er mjög miskunnsamur og líknsamur.