Heyrið þetta, þér sem troðið fátæklingana niður
og gerið út af við þurfamenn í landinu.
Þér sem spyrjið: „Hvenær tekur tunglkomuhátíðin enda
svo að vér getum haldið áfram að selja korn?
Hvenær líður hvíldardagurinn hjá?
Vér viljum geta opnað kornhlöðurnar.
Vér ætlum að minnka kornmálið, hækka verðið og falsa vogina.
Þá getum vér keypt hina umkomulausu fyrir silfur
og fátæklinginn fyrir eina ilskó.
Það er úrgangskorn sem vér seljum.“
Drottinn hefur svarið við stolt Jakobs:
Aldrei nokkru sinni mun ég gleyma verkum þeirra.
Hlýtur ekki öll jörðin að skjálfa vegna þess
og allir sem á henni búa að syrgja?
Hlýtur hún ekki að vaxa eins og fljót,
bólgna og réna síðan aftur,
eins og fljót Egyptalands?
Á þeim degi, segir Drottinn Guð,
mun ég láta sólina ganga til viðar um hádegi
og myrkva landið um hábjartan dag.
Ég mun snúa hátíðum yðar í sorgarathafnir,
breyta lofsöngvum yðar í harmljóð.
Ég mun gyrða allar lendar með hærusekk
og krúnuraka hvert höfuð.
Ég mun færa landinu sorg
eins og sorg eftir einbirni,
endalokin verða eins og hinn bitri dagur dauðans.
Sjá, þeir dagar koma, segir Drottinn Guð,
að ég sendi hungur til landsins,
hvorki hungur eftir brauði né þorsta eftir vatni,
heldur eftir orði Drottins.
Þá munu menn reika frá einu hafi til annars,
flakka frá norðri til austurs
og leita að orði Drottins
en þeir munu ekki finna það.
Á þeim degi verða fríðar ungmeyjar
og æskumenn örmagna af þorsta.
Þeir sem sverja við syndarsekt Samaríu
og segja: „Svo sannarlega sem Guð þinn lifir, Dan,“
og: „Svo sannarlega sem Guð Beerseba lifir.“
Þeir munu falla og aldrei rísa upp aftur.