Hafi ég synjað bón þurfandi manns
og gert augu ekkjunnar döpur,
hafi ég borðað bitann minn einn
án þess að deila honum með munaðarleysingjanum,
nei, frá barnæsku hef ég verið honum sem faðir
og stutt ekkjuna allt frá móðurlífi,
hafi ég séð klæðlausan mann að dauða kominn
og snauðan mann án ábreiðu,
hafi lendar hans ekki blessað mig
og ullin af lömbum mínum ekki haldið á honum hita,
hafi ég slegið hendi til munaðarleysingja
þegar ég sá að ég hafði stuðning í borgarhliðinu,
þá losni herðablöð mín frá öxlunum
og armur minn brotni í liðnum.
Já, tortíming frá Guði var skelfing
og fyrir hátign hans megna ég ekkert.
Hafi ég sett von mína á gull
og sagt að skíragull væri stoð mín,
hafi ég glaðst yfir miklum auði
því að hönd mín aflaði mikils,
hafi ég litið skin sólarinnar
og tunglið sem óð dýrlega áfram,
og hafi hjarta mitt látið tælast á laun
og ég sent handkoss,
þá væri það refsivert brot
af því að ég hefði afneitað Guði í upphæðum.
Hafi ég glaðst yfir óförum óvinar míns
og hlakkað yfir böli hans,
leyfði ég munni mínum ekki að syndga
með því að sækjast eftir lífi hans með formælingum.
Hafa íbúar tjalds míns ekki sagt:
„Hver varð ekki saddur af kjöti hans?“
Enginn aðkomumaður þurfti að nátta utan dyra,
ég lauk þeim upp fyrir vegfarendum.