Englarnir tveir komu til Sódómu um kvöldið og sat þá Lot í borgarhliðinu. Og er hann sá þá stóð hann upp til þess að heilsa þeim og hneigði ásjónu sína til jarðar og sagði: „Sýnið það lítillæti, herrar mínir, að koma inn í hús þjóns ykkar og þiggja næturgistingu og þvo fætur ykkar. Þá getið þið risið árla á morgun og haldið ferð ykkar áfram.“
En þeir svöruðu: „Nei, við ætlum að sofa á torginu.“
En Lot lagði svo hart að þeim að þeir létu til leiðast að ganga inn í hús hans. Bjó hann þeim máltíð og bakaði ósýrt brauð og þeir neyttu.
Þeir höfðu ekki enn gengið til hvíldar þegar borgarmenn, menn Sódómu, slógu hring um húsið, bæði ungir og gamlir, allur múgurinn til síðasta manns, og kölluðu til Lots:
„Hvar eru mennirnir sem komu til þín í kvöld? Leiddu þá út til okkar að við megum kenna þeirra.“
Lot gekk út um dyrnar til þeirra, lokaði á eftir sér og sagði: „Bræður mínir, fremjið ekki óhæfu. Sjáið til, ég á tvær dætur sem ekki hafa karlmanns kennt. Ég skal leiða þær út til ykkar og þið getið gert við þær sem ykkur lystir. Aðeins að þið gerið ekkert mönnum þessum því að þeir eru komnir undir skugga þaks míns.“
Þeir æptu: „Burt með þig!“ og sögðu: „Þessi náungi er hingað kominn sem útlendingur og nú ætlar hann að setjast í dómarasæti yfir okkur. Við munum fara verr með þig en þá.“
Og þeir gerðu aðsúg að Lot og voru að því komnir að brjóta upp hurðina. Þá seildust mennirnir út og kipptu Lot inn fyrir og læstu dyrunum. En þá sem úti stóðu slógu þeir blindu, bæði stóra og smáa, og gáfust þeir upp við að finna dyrnar.