Mennirnir tóku sig nú upp þaðan og horfðu í átt til Sódómu. Abraham ætlaði að fylgja þeim áleiðis.
Þá mælti Drottinn: „Hví ætti ég að dylja Abraham þess sem ég hef í hyggju þar sem hann mun verða að mikilli og voldugri þjóð og allir lýðir heims munu af honum blessun hljóta? Ég hef kjörið hann til þess að bjóða börnum sínum og niðjum eftir sig að gefa gætur að vegi Drottins og iðka rétt og réttlæti. Mun þá Drottinn láta koma fram við Abraham það sem hann hefur heitið honum.“
Drottinn sagði: „Neyðarópin frá Sódómu og Gómorru eru mikil og synd þeirra mjög þung. Ég ætla að stíga niður og gæta að hvort þeir hafa aðhafst allt sem neyðarópin, sem borist hafa til mín, benda til. Ef ekki vil ég vita það.“
Mennirnir sneru nú þaðan og héldu til Sódómu en Abraham stóð enn frammi fyrir Drottni. Hann gekk fram og mælti: „Ætlarðu að tortíma hinum réttláta með hinum óguðlega? Vera má að fimmtíu réttlátir séu í borginni. Ætlarðu þá að tortíma þeim og þyrma ekki borginni vegna hinna fimmtíu réttlátu sem þar eru? Fjarri þér sé að gera slíkt, að deyða hinn réttláta með hinum guðlausa. Fer þá hinum réttláta eins og hinum guðlausa. Fjarri sé það þér. Mun dómari allrar jarðarinnar ekki gera rétt?“
Drottinn svaraði: „Finni ég fimmtíu réttláta í Sódómu þá þyrmi ég borginni allri þeirra vegna.“
Þá sagði Abraham: „Ég hef dirfst að eiga orðastað við sjálfan Drottin þótt ég sé duft eitt og aska. Nú kann fimm að skorta á tölu fimmtíu réttlátra. Ætlarðu þá að tortíma allri borginni vegna þeirra fimm?“
Hann svaraði: „Ég mun ekki tortíma borginni ef ég finn þar fjörutíu og fimm.“
Og enn sagði Abraham við hann: „Vera má að þar finnist ekki nema fjörutíu.“
Hann svaraði: „Vegna hinna fjörutíu mun ég ekkert aðhafast.“
Þá sagði Abraham: „Nú má Drottinn ekki reiðast mér, að ég tek aftur til máls. Vera má að þar finnist ekki nema þrjátíu.“
Hann svaraði: „Ef ég finn þar þrjátíu aðhefst ég ekkert.“
Þá sagði Abraham: „Enn gerist ég svo djarfur að ávarpa Drottin. Vera má að þar finnist ekki nema tuttugu.“
Hann svaraði: „Vegna hinna tuttugu tortími ég ekki borginni.“
Abraham mælti: „Nú má Drottinn ekki reiðast mér þótt ég taki til máls aðeins í þetta eina skipti. Vera má að þar finnist ekki nema tíu.“
Hann svaraði: „Vegna hinna tíu tortími ég ekki borginni.“
Og Drottinn fór er hann hafði lokið að tala við Abraham en Abraham hvarf aftur heimleiðis.