Gerið því hugi ykkar viðbúna og verið vakandi. Bindið alla von ykkar við þá náð sem ykkur mun veitast við opinberun Jesú Krists. Verið eins og hlýðin börn og látið líferni ykkar ekki framar mótast af þeim girndum er þið áður létuð stjórnast af í vanvisku ykkar. Verðið heldur sjálf heilög í öllu dagfari ykkar eins og sá er heilagur sem ykkur hefur kallað. Ritað er: „Verið heilög því ég er heilagur.“
Fyrst þið ákallið þann sem föður er dæmir án manngreinarálits eftir verkum hvers og eins, þá gangið fram í guðsótta útlegðartíma ykkar. Þið vitið að Guð frelsaði ykkur ekki með forgengilegum hlutum, silfri eða gulli, frá fánýtri hegðun ykkar er þið höfðuð að erfðum tekið frá forfeðrum ykkar, heldur með dýrmætu blóði Krists, hins lýtalausa og óflekkaða lambs. Guð útvaldi hann fyrir sköpun heims en hann var opinberaður vegna ykkar í lok tímanna. Fyrir hann trúið þið á Guð er vakti hann upp frá dauðum og gaf honum dýrð. Því er trú ykkar einnig von til Guðs.
Með því að hlýða sannleikanum hafið þið hreinsað ykkur og getið því borið hræsnislausa elsku hvert til annars. Haldið því áfram að elska hvert annað af heilu hjarta. Þið eruð endurfædd, ekki af forgengilegu sæði heldur óforgengilegu, fyrir orð Guðs sem lifir og varir. Því að:
Allir menn eru sem gras
og öll vegsemd þeirra sem blóm á grasi,
grasið skrælnar og blómið fellur.
En orð Drottins varir að eilífu.