Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér að sumar er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið allt þetta, að hann er í nánd, fyrir dyrum. Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok uns allt þetta er komið fram. Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.
En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn. Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins. Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags er Nói gekk í örkina. Og þeir vissu ekki fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu Mannssonarins. Þá verða tveir á akri, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn. Tvær munu mala á kvörn, önnur verður tekin, hin eftir skilin.
Vakið því, þér vitið eigi hvaða dag Drottinn yðar kemur. Það skiljið þér að húsráðandi vekti og léti ekki brjótast inn í hús sitt ef hann vissi á hvaða stundu nætur þjófurinn kæmi. Verið þér og viðbúin því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi.
Hver er sá trúi og hyggni þjónn sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma? Sæll er sá þjónn er húsbóndinn finnur breyta svo er hann kemur. Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar. En ef illur þjónn segir í hjarta sínu: Húsbónda mínum dvelst og hann tekur að berja samþjóna sína og eta og drekka með svöllurum þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi sem hann væntir ekki, á þeirri stundu sem hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með hræsnurum. Þar verður grátur og gnístran tanna.“