Daníel sagði þá við manninn sem æðsti geldingur konungs hafði sett til eftirlits þeim Daníel, Hananja, Mísael og Asarja: „Reyndu okkur nú, þjóna þína, í tíu daga. Gefðu okkur grænmeti til matar og vatn að drekka. Virtu svo fyrir þér útlit okkar og útlit þeirra sem snæða krásir konungs og farðu síðan með okkur, þjóna þína, eins og þér líst.“ Hann fór að þessum orðum þeirra og reyndi þá þannig í tíu daga. Og að tíu dögum liðnum voru þeir hraustlegri ásýndum og í betri holdum en öll hin ungmennin sem snæddu krásir konungs. Eftirlitsmaðurinn fór þá burt með krásirnar og vínið sem þeim var ætlað og færði þeim grænmeti.
Þessum fjórum piltum veitti Guð lærdóm og leikni í hvers kyns ritmennt og speki. Og Daníel gat ráðið hverja sýn og hvern draum.
Svo leið að þeim tíma þegar konungur hafði ákveðið að þeir skyldu leiddir fyrir hann. Þá leiddi æðsti geldingurinn þá fram fyrir Nebúkadnesar. Konungur ræddi við þá og meðal þeirra allra reyndist enginn jafnoki þeirra Daníels, Hananja, Mísaels og Asarja. Þeir hlutu því sess við hirð konungs. Í öllum visku- og skilningsatriðum, sem konungur leitaði ráða um hjá þeim, fann hann að þeir voru tífalt fremri öllum spásagnamönnum og særingamönnum í ríki hans.
Þarna dvaldist Daníel allt til fyrsta stjórnarárs Kýrusar konungs.