Mildilegt svar stöðvar bræði
en fúkyrði vekja reiði.
Af tungu hinna vitru drýpur þekking,
af munni heimskingjanna streymir flónskan.
Augu Drottins eru alls staðar
og vaka yfir vondum og góðum.
Hógværð tungunnar er lífstré
en fals hennar veldur hugarkvöl.
Afglapinn smáir leiðsögn föður síns
en sá sem tekur umvöndun verður hygginn.
Í húsi hins réttláta er mikill auður
en í gróða hins rangláta er óreiða.
Varir hinna vitru dreifa þekkingu
en hjarta heimskingjanna fer villt vegar.
Fórn ranglátra er Drottni andstyggð
en bæn réttsýnna er honum þóknanleg.
Vegur hins rangláta er Drottni andstyggilegur
en þann sem ástundar réttlæti elskar hann.
Vægðarlaus hirting bíður þess sem hverfur af réttri leið,
sá sem hatar umvöndun hlýtur að deyja.
Dánarheimur og undirdjúpin eru Drottni auðsæ,
hve miklu fremur hjörtu mannanna.