Því að ekki er til gott tré er beri slæman ávöxt né heldur slæmt tré er beri góðan ávöxt. En hvert tré þekkist af ávexti sínum enda lesa menn ekki fíkjur af þistlum né vínber af þyrnirunni. Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. Af gnægð hjartans mælir munnur hans.
En hví kallið þér mig Drottin, Drottin, og gerið ekki það sem ég segi? Ég skal sýna yður hverjum sá er líkur sem kemur til mín, heyrir orð mín og breytir eftir þeim. Hann er líkur manni er byggði hús, gróf djúpt fyrir og grundvallaði það á bjargi. Nú kom flóð og flaumurinn skall á því húsi en fékk hvergi hrært það vegna þess að það var vel byggt. Hinn, er heyrir það sem ég segi og breytir ekki eftir því, er líkur manni sem byggði hús á jörðinni án undirstöðu. Flaumurinn skall á því og það hús féll þegar og fall þess varð mikið.“