Biblíufélagið í Danmörku hefur tekið þátt í umræðunni þar í landi um Kóranbrennur fyrir utan sendiráð í Danmörku og í Svíþjóð. Johannes Baun, framkvæmdastjóri Biblíufélagsins í Danmörku telur að það sé „ekkert fallegt hægt að segja“ um atferli nokkurra einstaklinga sem hafa brennt Kóraninn fyrir framan sendiráð landa í Miðausturlöndum, með það að markmiðið að móðga og ögra menningu og trúarhefð viðkomandi landa og skapa þannig vandamál í samskiptum milli þjóða.

Johannes bendir þó á að ef stjórnvöld hyggist banna að Kóraninn sé brenndur á ákveðnum stöðum, þá sé mikilvægt að ekki sé um að ræða „Kóranlöggjöf“ heldur þurfi slík lög að fjalla almennt um brennur á helgiritum. Að öðrum kosti sé ekki um að ræða almenna löggjöf, heldur tilraun til að láta undan sértækum kröfum 57 múslímaríkja innan OIC.

Johannes bendir einnig á að guðlastsákvæðið sem nú hefur verið afnumið úr lögum, hafi ekki snúist um Guð, heldur trúarlegar tilfinningar fólks og það sé mikilvægt að greina þar á milli. Gagnkvæmur skilningur og virðing gagnvart trúarlegum skoðunum séu mikilvægir samfélagsþættir. Hann lýsir af þeim sökum stuðningi við lög sem taka tillit til einstaklinga sem telja að til séu rit sem eru heilög.