Vakna þú, vakna,
íklæð þig styrk, þú armur Drottins,
vakna þú eins og í árdaga,
á tímum löngu genginna kynslóða.
Varst það ekki þú sem hjóst Rahab
og lagðir drekann í gegn?
Varst það ekki þú sem þurrkaðir upp hafið,
vötnin í hinu mikla frumdjúpi,
sem gerðir hafdjúpið að vegi
svo að hinir endurleystu kæmust yfir?
Hinir endurkeyptu Drottins snúa aftur
og koma fagnandi til Síonar.
Eilíf gleði fer fyrir þeim,
fögnuður og gleði fylgir þeim,
en sorg og sút leggja á flótta.
Ég hugga yður, ég sjálfur.
Hver ert þú þá sem óttast dauðlega menn
og mannanna börn sem falla sem grasið
en gleymir Drottni, skapara þínum,
sem þandi út himininn og lagði grunn að jörðinni?
Þú óttast heift kúgarans sérhvern dag,
að hann ákveði að eyða þér.
En hvar er þá heift kúgarans?
Brátt verður bandinginn leystur,
hann mun ekki deyja í dýflissu
og ekki skorta brauð.
Ég er Drottinn, Guð þinn,
sá sem æsir hafið svo að brimið gnýr.
Drottinn allsherjar er nafn hans.
Ég lagði þér orð mín í munn,
skýldi þér í skugga handar minnar,
þegar ég þandi út himininn,
grundvallaði jörðina
og sagði við Síon: Þú ert lýður minn.