En ég hrópa til Guðs
og Drottinn mun hjálpa mér.
Morgun, kvöld og miðjan dag
kveina ég og styn
og hann bænheyrir mig,
hann endurleysir sál mína og gefur mér frið
frá þeim sem ráðast á mig
en mótstöðumenn mínir eru margir.
Guð bænheyrir mig og auðmýkir þá,
hann sem hefur ríkt frá upphafi, (Sela)
því að þeir bæta eigi ráð sitt
og óttast eigi Guð.
Fyrrum félagi minn lagði hendur á vini sína,
rauf sáttmálann sem hann hafði gert.
Hálli en smjör er tunga hans
en ófriður í hjarta,
mýkri en olía eru orð hans
og þó sem brugðin sverð.
Varpa áhyggjum þínum á Drottin,
hann mun bera umhyggju fyrir þér,
aldrei að eilífu
lætur hann réttlátan mann hrasa.
En Guð, þú munt steypa þeim niður í grafardjúpið.
Morðingjar og svikarar ná ekki miðjum aldri
en ég treysti þér.