Þegar Drottinn hugðist hefja Elía til himins í stormviðri voru þeir Elía og Elísa á leið frá Gilgal. Elía sagði við Elísa: „Bíð hér því að Drottinn hefur sent mig til Betel.“ En Elísa svaraði: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú sjálfur lifir, þá yfirgef ég þig ekki.“ Síðan fóru þeir niður til Betel.
Þá komu lærisveinar spámannanna, sem voru í Betel, til Elísa og sögðu við hann: „Veistu að í dag er Drottinn í þann veginn að taka frá þér meistara þinn?“ Hann svaraði: „Það veit ég vel en hafið hljótt um það.“
Elía sagði þá við hann: „Bíð hér, Elísa, því að Drottinn hefur sent mig til Jeríkó.“ En hann svaraði: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú sjálfur lifir, mun ég ekki yfirgefa þig.“ Þeir komu síðan til Jeríkó.
Lærisveinar spámannanna, sem voru þar, komu þá til Elísa og spurðu hann: „Veistu að í dag er Drottinn í þann veginn að taka frá þér meistara þinn?“ Hann svaraði: „Það veit ég vel en hafið hljótt um það.“
Þá sagði Elía við hann: „Vertu hér kyrr því að Drottinn hefur sent mig til Jórdanar.“ Elísa svaraði: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú sjálfur lifir, þá mun ég ekki yfirgefa þig.“ Fóru þeir síðan báðir saman. Fimmtíu spámannalærisveinar gengu með þeim og námu staðar álengdar þegar þeir tveir staðnæmdust við Jórdan. Þá tók Elía skikkju sína, braut hana saman og sló með henni á vatnið. Við það skiptist það og þeir gengu báðir þurrum fótum yfir.
Þegar þeir voru komnir yfir sagði Elía við Elísa: „Segðu mér hvað ég get gert fyrir þig áður en ég verð tekinn frá þér.“ Elísa sagði: „Ég vildi að mér hlotnuðust tveir hlutar af anda þínum.“ Hann svaraði: „Þú mælist til mikils. En ef þú sérð mig þegar ég verð tekinn frá þér munt þú hljóta þetta, annars ekki.“ Meðan þeir voru að tala saman á göngunni birtist skyndilega eldvagn með eldhestum fyrir er skildi þá að og Elía fór til himins í stormviðri. Elísa sá það og hrópaði: „Faðir minn, faðir minn. Þú, vagn Ísraels og vagnstjóri.“ Þegar Elía var horfinn sjónum hans þreif Elísa yfirhöfn sína og reif hana í tvennt. Þá tók hann upp skikkju Elía, sem hafði fallið af honum, sneri við og staðnæmdist á bökkum Jórdanar. Hann tók skikkju Elía, sem hafði fallið af honum, sló með henni á vatnið og sagði: „Hvar er nú Drottinn, Guð Elía?“ Þegar hann sló á vatnið skiptist það og Elísa gekk yfir.