Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt ekki drýgja hór. En ég segi yður: Hver sem horfir á konu í girndarhug hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu. Ef hægra auga þitt tælir þig til falls þá ríf það úr og kasta frá þér. Betra er þér að einn lima þinna glatist en öllum líkama þínum verði kastað í helvíti. Ef hægri hönd þín tælir þig til falls þá sníð hana af og kasta frá þér. Betra er þér að einn lima þinna glatist en allur líkami þinn fari til helvítis.
Þá var og sagt: Sá sem skilur við konu sína skal gefa henni skilnaðarbréf. En ég segi yður: Hver sem skilur við konu sína, nema fyrir hórsök, verður til þess að hún drýgir hór. Og sá sem gengur að eiga fráskilda konu drýgir hór.
Enn hafið þér heyrt að sagt var við forfeðurna: Þú skalt ekki vinna rangan eið en halda skaltu eiða þína við Drottin. En ég segi yður að þér eigið alls ekki að sverja, hvorki við himininn, því hann er hásæti Guðs, né við jörðina, því hún er skör fóta hans, né við Jerúsalem, því hún er borg hins mikla konungs. Og eigi skaltu sverja við höfuð þitt því að þú getur ekki gert eitt hár hvítt eða svart. En þegar þér talið sé já yðar já og nei sé nei. Það sem umfram er kemur frá hinum vonda.
Þér hafið heyrt að sagt var: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn þá bjóð honum einnig hina. Og vilji einhver þreyta lög við þig og hafa af þér kyrtil þinn gef honum eftir yfirhöfnina líka. Og neyði einhver þig með sér eina mílu þá far með honum tvær. Gef þeim sem biður þig og snú ekki baki við þeim sem vill fá lán hjá þér.