Fátæklingurinn verður jafnvel hvimleiður jafningja sínum
en auðmaðurinn eignast fjölda vina.
Sá sem fyrirlítur vin sinn drýgir synd
en lánsamur er sá sem sýnir nauðstöddum miskunn.
Vissulega villast þeir sem áforma illt
en hinir góðviljuðu ávinna sér trausta vináttu.
Allt erfiði færir ágóða
en fánýtt hjal leiðir til skorts.
Prýði hinna vitru er auður þeirra
en fíflska heimskingjanna er og verður fíflska.
Sannorður vottur bjargar lífi
en sá sem fer með lygar er svikari.
Að óttast Drottin veitir manni öryggi,
börn hans munu eiga sér athvarf.
Að óttast Drottin er lífslind
og forðar frá snörum dauðans.
Mannfjöldi er konungsprýði
en mannfæð steypir höfðingjum.
Sá sem er seinn til reiði er skynsamur
en hinn bráðláti setur heimskuna í hásæti.
Hugarró er líkamanum líf
en öfund er eitur í beinum hans.
Sá sem kúgar snauðan mann óvirðir skapara hans
en sá sem miskunnar snauðum heiðrar hann.
Hinn rangláti fellur á illsku sinni
en hinum réttláta er ráðvendnin athvarf.
Í hjarta hyggins manns hefur viskan hægt um sig,
á meðal heimskingja lætur hún mikið yfir sér.
Réttlæti er sæmd þjóðar
en syndin er smán þjóðanna.
Hæfur þjónn hlýtur hylli konungsins
en duglaus þjónn uppsker bræði hans.