og eyða vínvið hennar og fíkjutré
sem hún sagði um:
„Þau eru skækjulaun mín
sem ástmenn mínir greiddu mér.“
Ég geri garða hennar að kjarri
sem villt dýr munu éta.
Ég dreg hana til ábyrgðar fyrir hátíðisdaga Baala,
þegar hún færði þeim reykelsisfórnir
og skreytti sig með nefhring og hálsfesti
og elti ástmenn sína
en gleymdi mér, segir Drottinn.
Þess vegna lokka ég hana nú sjálfur
og fer með hana út í eyðimörkina
og hughreysti hana.
Þá gef ég henni víngarða hennar aftur
og geri Mæðudal að Vonarhliði.
Þá mun hún svara mér eins og á æskudögum sínum,
daginn sem hún hélt upp frá Egyptalandi.
Á þeim degi munt þú, segir Drottinn,
ávarpa mig „eiginmaður minn“,
og ekki framar kalla til mín „Baal minn“.
Ég fjarlægi nöfn Baala úr munni hennar
og þeir verða ekki nefndir á nafn framar.
Á þeim degi geri ég sáttmála fyrir Ísraelsmenn
við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðdýr jarðarinnar
og eyði boga, sverði og stríði úr landinu
og læt þá búa óhulta.
Ég festi þig mér um alla framtíð,
ég festi þig mér í réttlæti, réttvísi, kærleika og miskunnsemi,
ég festi þig mér í tryggð,
og þú munt þekkja Drottin.
Á þeim degi mun ég bænheyra, segir Drottinn,
ég mun bænheyra himininn
og hann mun bænheyra jörðina
og jörðin mun bænheyra kornið,
vínið og olíuna,
og þau munu bænheyra Jesreel
og mín vegna mun ég sá henni í landið.
Ég mun sýna Miskunnarvana miskunn
og segja við Ekki-lýð-minn: „Þú ert lýður minn,“
og hann mun segja: „Þú ert Guð minn.“