1. kafli
Orð Drottins sem barst Hósea Beerísyni þegar Ússía, Jótam, Akas og Hiskía voru konungar í Júda og Jeróbóam Jóasson var konungur í Ísrael.
Drottinn tók nú að tala til Hósea. Drottinn sagði við Hósea:
„Farðu og gakktu að eiga hórkonu
og eignastu hórbörn
því að landið drýgir hór
og hverfur frá Drottni.“
Þá fór hann og gekk að eiga Gómer Diblaímsdóttur,
hún varð þunguð og ól honum son.
Drottinn sagði við hann:
„Láttu hann heita Jesreel
því að eftir skamma hríð
dreg ég ætt Jehú til ábyrgðar
fyrir blóðbaðið í Jesreel
og bind enda á konungdæmi Ísraelsmanna.
Á þeim degi brýt ég boga Ísraels á Jesreelsléttu.“
Hún varð aftur þunguð og ól dóttur.
Drottinn sagði við Hósea:
„Gefðu henni nafnið Miskunnarvana
því að ég mun hvorki
miskunna Ísraelshúsi framar né fyrirgefa því.
En ég mun miskunna Júdahúsi
vegna Drottins, Guðs þess,
en ég mun ekki hjálpa því
með boga, sverði eða bardaga,
hestum eða riddurum,
heldur vegna Drottins, Guðs þess.“
Þegar Gómer hafði hætt að gefa Miskunnarvana brjóst
varð hún aftur þunguð og ól son.
Drottinn sagði:
„Láttu hann heita Ekki-lýður-minn
því að þér eruð ekki lýður minn
og ég verð ekki með yður.“

2. kafli
Fjöldi Ísraelsmanna verður sem sandkorn á sjávarströnd
sem hvorki verða mæld né talin.
Í stað þess að sagt er við þá: „Þér eruð ekki þjóð mín,“
verða þeir nefndir „Synir hins lifandi Guðs“.
Júdamenn og Ísraelsmenn munu sameinast
og taka sér einn leiðtoga
og snúa heim frá landinu
því að mikill er dagur Jesreel.
Segið við bræður yðar: „Þér eruð lýður minn“
og við systur yðar: „Yður er miskunnað“.