Ég er maðurinn sem hefur þjáðst undir reiðisvipu hans.
Mig hefur hann hrakið burt,
út í myrkur og niðdimmu.
Gegn mér snýr hann hendi sinni
án afláts allan daginn.
Hann hefur tálgað af mér hold og hörund
og mulið bein mín.
Beiskju og mæðu
hefur hann hlaðið upp í kringum mig,
hneppt mig í myrkur
eins og þá sem dánir eru fyrir löngu.
Hann hefur múrað mig inni svo að ég kemst ekki út,
lagt á mig þunga fjötra.
Þótt ég hrópi og kalli á hjálp
hafnar hann bæn minni.
Hann hefur lokað vegum mínum með höggnum steinum,
gert stigu mína torfæra.
Hann sat um mig eins og björn um bráð,
eins og ljón í launsátri.
Hann leiddi mig afvega og tætti mig sundur,
hann gerði út af við mig.
Hann spennti boga sinn og stillti mér upp
sem skotmarki fyrir örina.
Hann nísti nýru mín
með sonum örvamælis síns.
Ég varð allri þjóð minni að athlægi,
hún syngur um mig háðkvæði liðlangan daginn.
Hann mettaði mig beiskum jurtum,
gaf mér malurt að drekka,
lét mig bryðja möl
og þrýsti mér í duftið.
Þú hefur rænt mig friði,
ég veit ekki lengur hvað hamingja er
og segi: „Allur þróttur er mér horfinn
og brostin von mín til Drottins.“
Minnstu neyðar minnar og hrakninga,
malurtarinnar og eitursins.
Sál mín hugsar sífellt um þetta
og er döpur í brjósti mér.