Ég mun sjálfur koma til að stefna saman öllum þjóðum og tungum og þær munu koma og sjá dýrð mína. Ég mun setja upp tákn á meðal þeirra og senda þá sem undan komust til þjóðanna í Tarsis, Pút, Lúd, Mesek, Túbal, Javan og á hinum fjarlægu eyjum sem hvorki hafa heyrt neitt um mig né séð dýrð mína og þeir skulu skýra frá dýrð minni meðal þjóðanna. Þeir skulu flytja alla bræður yðar frá öllum þjóðum sem fórnargjöf til Drottins, á hestum og í vögnum og burðarstólum, á múldýrum og úlföldum til míns heilaga fjalls, til Jerúsalem, segir Drottinn, eins og þegar Ísraelsmenn færa kornfórn í hreinum kerum til húss Drottins. Ég mun jafnvel velja nokkra þeirra til að vera prestar og Levítar, segir Drottinn.
Já, eins og hinn nýi himinn
og hin nýja jörð, sem ég skapa,
standa frammi fyrir augliti mínu, segir Drottinn,
munu niðjar yðar og nafn standa þar.
Frá tunglkomudegi til tunglkomudags
og frá hvíldardegi til hvíldardags
koma allir menn til að falla fram fyrir augliti mínu, segir Drottinn.
Þeir munu ganga út og sjá lík þeirra sem risu gegn mér.
Hvorki deyja í þeim maðkarnir
né slokknar í þeim eldurinn
og þeir verða öllum mönnum viðurstyggð.