Nú fullnaðist brátt sá tími er Jesús skyldi upp numinn verða. Beindi hann þá augum til Jerúsalem, einráðinn að fara þangað. Og hann lét sendiboða fara á undan sér. Þeir fóru og komu í Samverjaþorp nokkurt til að búa honum gistingu. En menn tóku ekki við honum því að hann var á leið til Jerúsalem. Þegar lærisveinar hans, þeir Jakob og Jóhannes, sáu það sögðu þeir: „Drottinn, eigum við að bjóða að eldur falli af himni og tortími þeim?“
En Jesús sneri sér við og ávítaði þá [og sagði: „Ekki vitið þið hvaða andi býr í ykkur. Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum heldur til að frelsa.“] Og þeir fóru í annað þorp.
Á leiðinni sagði maður nokkur við Jesú: „Ég vil fylgja þér hvert sem þú ferð.“
Jesús sagði við hann: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“
Við annan sagði hann: „Fylg þú mér!“
Sá mælti: „Drottinn, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn.“
Jesús svaraði: „Lát hina dauðu jarða sína dauðu en far þú og boða Guðs ríki.“
Enn annar sagði: „Ég vil fylgja þér, Drottinn, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima.“
En Jesús sagði við hann: „Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í Guðs ríki.“