Mannssonur, allir bræður þínir, nánustu skyldmenni þín og allir aðrir Ísraelsmenn eru þeir sem íbúar Jerúsalem segja um: „Þeir eru langt frá Drottni, landið var fengið okkur til eignar.“ Segðu því: Svo segir Drottinn Guð: Þar sem ég flutti þá langt í burt til framandi þjóða og dreifði þeim um löndin varð ég þeim eins konar helgidómur í löndunum sem þeir fóru til. Segðu því: Svo segir Drottinn Guð: Ég mun safna ykkur saman frá þjóðunum og sækja ykkur til landanna sem ykkur var dreift um. Síðan mun ég gefa ykkur landið Ísrael. Þegar þeir koma þangað munu þeir fjarlægja þaðan allt sem er viðbjóðslegt og vekur andstyggð. Þá mun ég gefa þeim eindrægt hjarta og leggja þeim nýjan anda í brjóst. Ég mun fjarlægja steinhjartað úr líkama þeirra og gefa þeim hjarta úr holdi svo að þeir fylgi lögum mínum og haldi reglur mínar og framfylgi þeim. Þá skulu þeir verða mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð. En ég mun láta breytni þeirra koma þeim í koll sem í hjarta sínu fylgja viðbjóðslegum skurðgoðum sínum sem vekja andstyggð, segir Drottinn Guð.
Þá lyftu kerúbarnir vængjum sínum með hjólin sér við hlið en dýrð Guðs Ísraels var yfir þeim. Dýrð Drottins hóf sig upp frá borginni miðri og nam síðan staðar á fjallinu austan við borgina. Í sama mund hóf andi mig upp og flutti mig í sýn, fyrir anda Guðs, til útlaganna í Kaldeu. Síðan hvarf mér sýnin sem mér hafði birst. En ég greindi útlögunum frá öllum orðum Drottins sem hann hafði birt mér.